LANDALEITIN FYRIR 3.-6. BEKK (4.-7. BEKK Í NOREGI OG Á ÍSLANDI)
Landaleitin sendir nemendur af stað í spennandi og krefjandi könnunarleiðangra til hinna Norðurlandanna. Með því að spyrja og svara já- og nei-spurningum í fimm mínútur eiga nemendur að reyna að komast að því hvar á Norðurlöndunum viðmælandinn er niðurkominn. Þannig gefst nemendum tækifæri til að reyna kunnáttu sína í norrænni landafræði og nágrannamálunum dönsku, norsku og sænsku. Það skiptir máli að vera fljótur því eftir fimm mínútur er viðmælandanum sjálfkrafa skipt út fyrir nýjan. Svona gengur leikurinn fyrir sig:
Áður en leikurinn hefst:
- Bekknum er skipt í tveggja til þriggja manna hópa
- Nemendur kynna sér Google Maps auk þess að undirbúa spurnarorð/-setningar á dönsku, norsku og sænsku
- Hver hópur hefur tölvu, sem hann notar til að skrá sig inn á skólaspajllið
- Þar að auki þarf hver hópur að hafa aðra tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma, sem nota skal til að leita á Google Maps
Á meðan á leiknum stendur:
- Niðurtalningin hefst þegar hópurinn kemst í samband við annan hóp á Norðurlöndunum
- Nemendur hefja leikinn á því að heilsa hinum hópnum
- Annar hópurinn byrjar að spyrja einnar spurningar. Með því að spyrja einungis já- og nei-spurninga eigið þið að reyna að safna nægum upplýsingum til að komast að því hvar á Norðurlöndunum hinir nemendurnir eru.
- Hóparnir skiptast á að spyrja. Munið að einungis má svara játandi eða neitandi
- Þegar 30 sekúndur eru eftir ljóstrar Norden i Skolen upp um hvar nemendurnir eru niðurkomnir. Leiknum er hætt og þá gefst tími til að kveðja.
- Munið að þakka pent fyrir leikinn og kveðja almennilega – það er mikilvægt og telst almenn kurteisi
- Að fimm mínútum liðnum sendir skólaspjallið nemendur til móts við nýjan hóp einhvers staðar á Norðurlöndunum – Landaleitin hefst á nýjan leik!