Texti
Myndband
Leikir og þrautir
Samkeppni
Hljóðupptaka
Verkefni
Kennsluleiðbeiningar

Kennslumarkmið

{{learningObjectiv.description}}

Verkefninu hefur nú verið skilað

{{assignment.Index}} {{assignment.Type}}

Athugasemd

Verkefni

{{assignment.Comment}}

Fara í verkefni
print

Um jarðgas

Bekkur 8.-10. bekkur Námsgrein Náttúrufræði Námsáhersla Efni og orka Þema Auðlindir Efni Efnafræði Jarðefnaeldsneyti Tegund Texti
omnaturgas.jpg

 

Segja má að jarðgas sé hráolía í gasformi. Það samanstendur fyrst og fremst af metani - CH4 - en inniheldur einnig ólíkt magn af brennisteinsvetni– H2S – ásamt koltvísýringi, köfnunarefni og vatnsgufu.


Jarðgas er að finna neðanjarðar og gjarnan nálægt eða samliggjandi olíuforða. Það er oftast unnið upp úr jörðinni með borunum, þar sem þrýstingurinn verður til þess að gasið stígur upp á yfirborðið. Til að tryggja stöðugan þrýsting er gasforðinn gjarnan fylltur með því að dæla niður í hann vatni. Einnig hefur komið til athugunar að dæla koltvísýringi niður í holurnar þaðan sem gasið var tekið og komast þannig hjá því að sleppa honum út í andrúmsloftið. Tilraunir til þess hafa þó reynst erfiðari í framkvæmd en búist var við og því er aðferðin ekki notuð sem stendur.


Hvaðan kemur gasið?


Jarðgas myndast nánast á sama hátt og olía. Gasið myndast úr plöntu- og dýraleifum sem hafa þrýst saman af þykkum og þungum jarðlögum í milljónir ára. Jarðgas er ósýnilegt og lyktarlaust. Í Norðursjó búa Norðmenn yfir stórum jarðgasforða og þeir eru sjöundi stærsti framleiðandi heims, en samt sem áður er þessi hluti Noregs aðeins 3 prósent af heildarframleiðslunni á heimsvísu.


Aðeins um 1 prósent af jarðgasframleiðslu Noregs er notað í Noregi og því er notkunin þar ekki mikil. Eins er notkunin á jarðgasi í Svíþjóð rétt tæplega 2 prósent. Í Finnlandi er jarðgasnotkunin 11 prósent og yfir 30 prósent í Danmörku. Vegna þessarar takmörkuðu notkunar í Noregi er hægt að flytja stóran hluta framleiðslunnar út til annarra landa Evrópu. Noregur útvegar því skv. EIA (US Energy Information Administration) um 20 prósent af þörf Evrópu fyrir jarðgas. Fyrst og fremst til Þýskalands og Englands, sem kaupa yfir 50 prósent framleiðslunnar.


Orkuna í gasinu er hægt að nýta með beinum hætti innan heimilisins til upphitunar og matseldar, sem eldsneyti fyrir bíla og til að framleiða rafmagn. Jarðgas mætir u.þ.b. fjórðungi af orkuþörf heimsins.


Losun koltvísýrings er minni með jarðgasi


Aukin notkun jarðgass hefur vissa umhverfislega kosti í för með sér, þar sem jarðgas er hreinasta jarðefnaeldsneytið. Við brennslu losar jarðgas 25-30 prósent minna magn af koltvísýringi en olía og 30-50 prósent minna en kol. Reiknað er með því að á heimsvísu sé í þekktum jarðgasforða að finna jarðgas sem endist í u.þ.b. 70 ár, en þegar við bætist aukin áhersla á vinnslu jarðgass úr skífubergi mun þessi tala án nokkurs vafa að minnsta kosti tvöfaldast.


Annar kostur við jarðgas er að það inniheldur aðeins lítið magn brennisteins. Því myndar jarðgasbrennsla ekki svo mikið magn af sýru sem getur breyst í súrt regn. Þar fyrir utan losar jarðgasbrennsla hvorki ösku, ryk eða aðrar agnir út í andrúmsloftið eins og raunin er t.a.m. með kolabrennslu.


Gasleiðslur á öllum Norðurlöndunum – og í Evrópu


Jarðgasið frá Noregi – og frá Danmörku, en þar er einnig jarðgasforða að finna – er fyrst og fremst unnið af hafsbotni í Norðursjó. Þaðan er gasið flutt til notenda í gegnum gríðarstórt leiðslukerfi. Í dag kvíslast leiðslurnar um alla Evrópu eins og stórar hraðbrautir. Gasleiðslurnar liggja inn á þéttbýl svæði þar sem hægt er að nýta gasið með sem bestum hætti. Of dýrt og flókið væri að leggja gasleiðslur í hvert hús fyrir sig á dreifbýlum svæðum.


Flest Norðurlandanna fá sitt jarðgas frá Noregi og Danmörku, en í Finnlandi kemur stór hluti jarðgassins frá Rússlandi. Í Rússlandi er að finna stærsta jarðgasforða heims – u.þ.b. 40 prósent af heildarforða heimsins. Mörg lönd eru afar háð innflutningi jarðgass frá Rússlandi, sem oft hefur valdið misklíð ef umrædd lönd hafa átt í deilum.


Leirgas


Leirgas er jarðgas sem er framleitt úr skífubergi. Skífuberg samanstendur af leir og leðju sem hefur pressast mjög þétt saman og innihald þess er afar lífrænt. Leirgas telst til jarðgass og samanstendur að stærstum hluta til af metani. Leirgasforðann er að finna djúpt neðanjarðar í skífubergsmyndunum þar sem hann myndast.


Gasið sem framleitt er í Norðursjónum er unnið úr kalki og sandi sem liggur yfir skífuberginu.  Leirgasið er hins vegar bundið í sjálft skífubergið.


Núna er mikil áhersla lögð á að vinna leirgas því það er að finna í miklu magni í náttúrunni. Kappið í þessa átt hefur ekki síst verið mikið í Bandaríkjunum, því þar hafa landsmenn lengi verið háðir innflutningi á gasi og olíu frá öðrum löndum. Vinnsla á leirgasi hefur gert Bandaríkin óháðari öðrum löndum, en hefur einnig leitt til fjölda mótmæla vegna þess að aðferðin við að vinna leirgas er talin hafa eyðileggjandi áhrif á náttúruna.


Vökvasundrun – tækni til að vinna leirgas


Vökvasundrun (e. fracking) er tækni sem er notuð til að vinna gas úr skífubergi. Tæknin felst í því að niður í borholuna er dælt með háum þrýstingi blöndu af vatni (u.þ.b. 90 prósent), sandi (u.þ.b. 9,5 prósent) og ýmsum íðefnum (u.þ.b. 0,5% prósent). Háþrýstingurinn leiðir til þess að skífubergslagið sundrast og gerir gasinu, sem þar er að finna og hefur verið bundið í skífubergið, kleift að losna úr læðingi.  Í Bandaríkjunum hafa umhverfisverndarsamtök m.a. bent á að notkun íðefna í þessu ferli mengi bæði grunnvatnið og jörðina sjálfa. Þar fyrir utan inniheldur skífuberg úran, sem er geislavirkt efni, og notkun leirgass mun að auki leiða til aukinnar losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið. Í Bandaríkjunum óttast menn einnig að vinnsluaðferðin við vökvasundrun geti valdið jarðskjálftum. Í júní 2014 veittu dönsk yfirvöld tilraunaleyfi til vökvasundrunar og þar eru einnig ýmis umhverfissamtök uggandi yfir tilraununum.

Skráðu þig inn til að sjá fleira

Verkefni

 • Krossaspurningar

 • Þemaverkefni

  • 1Þemaverkefni

    

   Lýstu ferlinu við hefðbundna framleiðslu á gasi og ferlinu við framleiðslu á leirgasi. Hvað er líkt og hvað ólíkt? Hverjir eru helstu kostir og gallar hvorrar aðferðar?

  • 2Þemaverkefni

    

   Teiknið kort af Evrópu og kynnið ykkur hvaða svæði eru með stórum gaslindum. Merkið þau svæði inn á kortið. Leitið svo á netinu að upplýsingum um staðsetningar leiðslukerfanna sem tengja mismunandi lönd saman. Merkið þetta inn á kortið með táknum fyrir borpalla, leiðslukerfi, gasvinnslustöðvar og gasorkuver. Skýrið hvaða hlutverk hver þessara fjögurra þátta hefur.

  • 3Þemaverkefni

    

   Gerið skýringarmynd af gasborpalli og lýsið því hvernig gasið er framleitt og hvernig það er sótt úr hólfunum undir hafsbotninum.

 • Vinabekkur

  • 1Vinabekkur

    

   Gerið könnun með spurningalista í bekknum. Hvað búa margir á heimilum sem eru hituð upp með jarðgasi? Hvað búa margir á heimilum þar sem eru jarðgasofnar og hvað margir á heimilum þar sem hitinn kemur frá miðlægum jarðgasorkuverum (varmaorka eða orkuveita)?


   Berið niðurstöðurnar saman við niðurstöður frá vinabekknum ykkar. Hvað er líkt og hvað ólíkt? Hvað kostar það að hita upp heimili vinabekkjarins miðað við kostnaðinn í ykkar bekk?