Texti
Myndband
Leikir og þrautir
Samkeppni
Hljóðupptaka
Verkefni
Kennsluleiðbeiningar

Kennslumarkmið

{{learningObjectiv.description}}

Verkefninu hefur nú verið skilað

{{assignment.Index}} {{assignment.Type}}

Athugasemd

Verkefni

{{assignment.Comment}}

Fara í verkefni
print

Vísindamenn greinir á

forskerneeruenige.jpg

Fá svið vekja jafn sterkar tilfinningar hjá þátttakendum og loftslagsumræðan. Það er í sjálfu sér þversögn því loftslagsumræðan er svið sem snýst framar öðru um vísindaleg rök.
Ef leitað er á netinu eftir leitarorðunum „umræða um umhverfismál“ koma fljótt upp ótal umræður og deilumál milli almennings sem þrætir af kappi um það hvort hnattræn hlýnun sé staðreynd eða ímyndun, hvort slík umhverfisáhrif séu af mannavöldum eða ekki og hvaða afleiðingar þau munu í raun hafa. Ástæðan fyrir því að umræðan verður iðulega mjög tilfinningaþrungin er líklega sú að hún varðar daglegt líf okkar og lífsmáta.
Ef við erum að menga og eyðileggja jörðina okkar með þeim lífsmáta sem við höfum tamið okkur - verðum við þá að hætta að nota bíla? Hætta að fara með flugvél í sumarfrí - eða hætta að geta keypt grænmeti árið um kring í næstu kjörbúð? Umræðan um umhverfismálin er með öðrum orðum miðlæg í allri daglegri samfélagsumræðu um líf okkar og lifnaðarhætti.


Samráðshópur fræðimanna


Þar sem þetta umræðuefni vekur upp fjölda flókinna spurninga ákváðu Sameinuðu þjóðirnar árið 1987 að stofna IPCC. Skammstöfunin stendur fyrir Intergovernmental Panel on Climate Change og þessi samráðshópur er í dag virkasti vettvangurinn fyrir rannsóknir og umræðu um umhverfismál. IPCC stendur ekki fyrir rannsóknum í eigin nafni en fylgist reglulega með og fer yfir allar rannsóknir og gögn sem fyrir liggja, leggur á þau mat og leggur til viðbrögð og mótvægisaðgerðir.
Á um það bil fimm ára fresti eru gefnar út svokallaðar matsskýrslur (Assessment Reports). Það eru yfirgripsmiklar samantektarskýrslur um loftslagsástand á jörðinni. Starfið skiptist í þrennt: greiningu orsaka, greiningu afleiðinga og greiningu hugsanlegra aðgerða í tengslum við loftslagsbreytingar.
Fram til þessa hefur IPCC sent frá sér fimm skýrslur af þessu tagi (1990, 1995, 2001, 2007 og 2013). Í október 2014 voru margir leiðtoga heimsins komnir saman í Kaupmannahöfn til að ræða skýrsluna frá árinu 2013.
Af þeim fimm skýrslum sem út hafa komið er þessi nýjasta skýrsla mest afgerandi. Skýrslan sýnir fram á að ef við hefjumst ekki handa af alvöru við að draga úr orkunotkun og minnka losun koltvísýrings kunni hitastig að hækka um allt að 4,8 gráður á celcíus, samanborið við meðalhitastig á jörðinni fyrir einni öld. Eins og þegar hefur sýnt sig hefur sú mikla losun koltvísýrings sem nú á sér stað í för með sér að hitastigið hækkar og í kjölfarið hafa jöklarnir á heimskautunum, þ.e. Grænland og Suðurskautið, bráðnað. Það hefur svo í för með sér að yfirborð sjávar hækkar.  Sérfræðingahópurinn áætlar að yfirborð sjávar muni hækka um 26 til 82 sentímetra fram til loka þessarar aldar.
Það mun m.a. hafa í för með sér að veðurfar verður óstöðugra og sveiflur í veðri meiri. Hitabylgjur verða tíðari og munu standa lengur yfir í senn. Samfara því að jörðin hlýnar mun rigna enn meira á svæðum sem þegar eru votviðrasöm en þurrari svæði verða enn þurrari. Fjöldi manns mun neyðast til að flýja átthaga sína og sum ræktarlönd verða ónothæf til ræktunar, svo erfiðara verður að afla fæðu. Það getur aftur leitt til styrjalda og mikils fjölda flóttamanna, sem hefur víðtækar afleiðingar um heim allan.


Fólk og fræðimenn


Yfir 90 prósent vísindamanna í heiminum tekur undir niðurstöður IPCC. Þó virðast margir meðal almennings, þrátt fyrir mat vísindamanna, telja að vísindamenn á sviði loftslagsrannsókna séu langt í frá sammála um hnattræna hlýnun og umfang hennar og það hvort þessi hlýnun er af mannavöldum. Loftslagsbreytingar eru flókið mál sem getur verið erfitt að skilja til fulls. Og þær blasa heldur ekki við okkur dags daglega. Sum árin rignir allt sumarið og sumir vetur eru nánast snjólausir - og þá kviknar gjarnan umræða um loftslagsbreytingar. En árið á eftir kyngir niður snjó og þá hugsa margir með sér: Nei, þetta með loftslagsbreytingarnar hefur sennilega verið einhver vitleysa. Veður og loftslagsbreytingar eru nefnilega bæði tvennt ólíkt og eitt og hið sama. Þegar unnið er að rannsóknum á loftslagsbreytingum er verið að skoða meðaltal af fjölda talna úr margs konar gögnum. Tölurnar spanna mörg ár og mörg landsvæði í senn. Þetta er eitt af því sem gerir almenningi erfitt um vik að átta sig á þessu. Við upplifum oftast loftslagið eins og það er hverju sinni, dag fyrir dag.
Í könnun frá árinu 2009 sem gerð var meðal 3.146 vísindamanna svöruðu 90 prósent þeirra því játandi að meðalhitastig á jörðinni hefði hækkað frá 19. öldinni og 82 prósent töldu að framkvæmdir af mannavöldum væru að verulegum hluta ástæða þessa. Aðrar kannanir hafa sýnt að afstaða almennings er allt önnur. Bandarísk könnun sem gerð var á svipuðum tíma sýndi að aðeins 58 prósent Bandaríkjamanna töldu að hnattræn hlýnun væri af mannavöldum. Nýleg dönsk könnun sýnir að 71 prósent almennings í Danmörku er nokkuð sammála eða mjög sammála því að meðalhitastig hafi hækkað á jörðinni, en að 60 prósent eru nokkuð sammála eða mjög sammála því að þessi hlýnun sé mannanna verk.


Ágreiningsmálin


Eins og fram hefur komið eru einnig til vísindamenn sem ekki taka undir þær ályktanir sem IPCC dregur. Því miður hefur umræðan sem hefur skapast meðal þeirra ekki verið nægilega málefnaleg og fræðileg og þessi ágreiningur hefur ekki orðið til þess að efla umræðuna eða gera hana gagnlegri. Sú umræða hefur þvert á móti breyst í þráskák þar sem tvær andstæðar fylkingar takast á og vilja hvergi mætast.
Andspænis hópi vísindamanna sem eru á þeirri skoðun að loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað stafi fyrst og fremst af losun á gróðurhúsalofttegundinni koltvísýringi stendur annar hópur vísindamanna sem álítur að yfirstandandi loftslagsbreytingar séu að flestu leyti áþekkar sambærilegum breytingum sem hafa orðið á s.l. tveimur öldum - og í mun fjarlægari fortíð.
Helstu rök andstæðinganna eru þau að breytingar á hitastigi stafi fyrst og fremst af aukinni eða minni virkni sólar, fremur en af aukinni losun á koltvísýringi.  Það eru nefnilega tengsl á milli geimgeislunar- sem stafar einkum frá sólinni - og því hvernig andrúmsloft jarðar þróast og hegðar sér. Þessir vísindamenn hafa m.a. sýnt fram á að hækkun eða lækkun á hitastigi virðist haldast í hendur við aukna eða minnkaða geimgeislun á jörðinni - samkvæmt mælingum langt aftur í tímann.

Skráðu þig inn til að sjá fleira

Verkefni

 • Krossaspurningar

 • Þemaverkefni

  • 1Þemaverkefni

    

   Leitaðu að IPCC á netinu. Hvernig samtök eru þetta? Hvað eru margir meðlimir í samtökunum? Hvað gera þau?

  • 2Þemaverkefni

    

   Leitaðu að „ipcc 5th report on climatechange“ á netinu. Það er fimmta skýrsla IPCC um loftslagsbreytingar sem kom út árin 2013 og 2014. Lýstu meginniðurstöðum skýrslunnar.

 • Vinabekkur

  • 1Vinabekkur

    

   Leitið að hugtökunum „hnattræn hlýnun“ og „loftslagsmál“ á netinu og finnið umræður, til að mynda úr blöðunum, þar sem venjulegt fólk rökræðir um loftslagsvandamál. Finnið nokkur einkennandi innlegg í umræðuna og lesið þau yfir.


   Lýsið umræðunni, er hún á jákvæðum nótum? Er hún alvarleg? Sendið dæmin til vinabekkjarins og gerið samanburð.