Texti
Myndband
Leikir og þrautir
Samkeppni
Hljóðupptaka
Verkefni
Fagbókmenntir
Kennsluleiðbeiningar

Gleymt lykilorð?

 

Um færeysku

Tungumál: Færeyska

Fjöldi málhafa: U.þ.b. 75.000

Tökuorð úr færeysku í öðrum tungumálum: Grindehval

Að heilsast: Hey og góðan dag

Tungubrjótur: Eitt heitt, nýbakað byggbreyð

 

 

Færeyska hefur ungt ritmál

Í lok 18. aldar var ritaður nokkur fjöldi færeyskra texta: tiltölulega stór orðabók með dönskum og latneskum þýðingum leit dagsins ljós og skrásettir voru fjölmargir sagnadansar og annað þjóðsagnaefni sem áður hafði einungis lifað í munnlegri geymd – mann fram af manni. Þá var ekki enn komið samræmt ritmál fyrir færeysku, svo hver skrásetjari hafði sinn eigin hátt á að stafsetja og tóku flestir mið af framburði. Gerðar voru tilraunir til að koma á samræmdu færeysku ritmáli en það var ekki fyrr en árið 1846 að V.U. Hammershaimbs setti fram tillögu að færeyskri réttritun sem hafði málsögulegar rætur – og með því varð til hið færeyska ritmál sem við þekkjum í dag. Þó liðu þónokkur ár þar til ritmálið breiddist út. Meginorsökin var að á þessum tíma voru samskipti Færeyinga nær eingöngu munnleg, engir opinberir skólar voru starfræktir í landinu og menningin varðveittist í munnlegri geymd. Hins vegar fóru samskipti á vegum opinberra stofnana sem og kirkjunnar fram á dönsku. Þess vegna var danska viðtekið tungumál hins opinbera og einnig í færeyskum skólum allt fram á miðja 20. öld. Færeyska varð ekki fyrsta tungumál skóla og stjórnsýslu fyrr en eftir heimsstyrjöldina síðari.

 

Færeyska er norrænt tungumál. Ritmál færeysku líkist mjög ritmáli íslenskunnar, þó að nokkur munur sé á orðaforða málanna – en færeyskur orðaforði líkist einnig skandinavísku um margt. Færeyskur framburður hefur talsverð sérkenni og hefur t.a.m. þróað með sér tvíhljóð sem fyrirfinnast ekki í nágrannamálunum.

 

 

 

Færeyska – norrænt tungumál

Færeyska er það Norðurlandamál sem fæstir tala. Um 75.000 einstaklingar tala færeysku, þar af eru 50.000 búsettir í Færeyjum. Færeysk málfræði á margt sameiginlegt með fornnorrænu (forníslensku) og íslenskri málfræði. Fallbeygingarkerfið er það sama. Málfræðilegt kyn og beyging svipar einnig til nútímaíslenskunnar. Aftur á móti hefur færeysk málfræði haft tilhneigingu til að breytast hraðar en hin íslenska. T.d. er eignarfall almennt ekki notað í nútíma færeysku. Tökuorð eru einnig algengari í færeysku, áður fyrr komu þau helst úr dönsku en eru nú á tímum flest úr ensku. Því skilur sá sem talar skandinavísku líklegast fleiri orð í færeysku en íslensku. Fyrsta heimildin um færeysku sem sérstætt norrænt tungumál er lagasafn frá 1298 sem kallast Seyðabrævið og fjallar um sauðfjárbúskap í landinu.

 

Bókaútgáfa á færeysku er í miklum blóma og fjölmargar bækur gefnar út, jafnt fagurbókmenntir sem fræðirit. Þýðingar á færeysku eru jafnframt margar og spanna flest svið ritaðra texta. Fróðskaparsetur Føroya (sem er háskólinn í Færeyjum) býður upp á sumarnámskeið í færeyskri menningu, tungumáli og bókmenntum, fyrir norræna og aðra alþjóðlega nema.

 

 

Berið tungumálin saman 

Eftirfarandi texti hefur verið þýddur á öll Norðulandamálin. Finndu út hvað er líkt og ólíkt með tungumálunum með því að smella á síðurnar um málin. Hér er færeysk þýðing á textanum:

 

Sviar, norðmenn og danir skilja heilt væl hvønn annan. Teir hava størri trupulleikar við íslendskum, hóast íslendskt líkist tí skandinaviska málinum, ið varð tosað fyri túsund árum síðan. Tættast íslendskum er føroyskt, men málini eru ikki so lík, at ein íslendingur skilir ein føroying uttan trupulleikar.

 

Finskt minnir um estiskt, men har er eisini skyldskapur við sámisku málini. Í bæði finskum og sámiskum kann ein til dømis skapa long orð við at leggja bendingar aftur at stovninum. Men viðvíkjandi longum orðum er grønlendskt heilt serstakt. Har onnur mál hava brúk fyri einum heilum setningi, er ofta nóg mikið við einum einstøkum grønlendskum orði.

 

Hvað heldur þú að orðið „trupulleikar“ þýði?

 

Myndir

250px-Flag_of_the_Faroe_Islands.svg.png