1. Stuðlið að sterkum kennaratengslum
Vegna landfræðilegrar fjarlægðar og ólíkra skólarútína (hvort sem það eru stundatöflur, venjur eða þá tímamismunur) er auðvelt, í hversdagsannríki skólastarfsins, að gleyma fyrirfram ákveðnu vinabekkjarsamstarfi og það ferst fyrir. Mikilvægur hluti af upphafsferlinu fyrir kennara er að hafa samband og kynnast hver öðrum. Það ætti að vera huggulegt, áhugavert og lærdómsríkt fyrir báða aðila, um leið og það er dýrmætur undirbúningur fyrir stóru stundina þegar bekkirnir þurfa að takast á við áskoranir, hvor í sinni stofu.
Hvernig geta kennarar búið sig undir þetta?
- Hægt er að sammælast um fund á Facetime/Skype yfir kaffibolla til að skiptast á hugmyndum og verkefnum.
- Kennarar vinabekkjanna geta gerst vinir á Facebook og kynnst hver öðrum með þeim hætti.
- Verið reglulega í sambandi, einnig áður en samstarf vinabekkjanna hefst.
2. Reiknið með rúmum tíma í undirbúning
Þverþjóðlegt vinabekkjasamstarf krefst mikillar samhæfingar, góðs skipulags og að kennarar geri grein fyrir þeim væntingum sem þeir hafa til samstarfsins. Landfræðileg fjarlægð, ólík móðurmál auk mismunandi skólarútína gera þátttakendum erfiðara fyrir að skipuleggja öll smáatriði í þaula. Af þeim ástæðum er mikilvægt að fyrir liggi skýrt samkomulag um tíma-/dagsetningu fyrir samstarfið, áætlaða lengd, áhersluatriði og markmið. Með þessu má fyrirbyggja ósamræmi eða ósætti.
3. Búið ykkur undir að eitthvað fari úrskeiðis
Í þverþjóðlegu vinabekkjasamstarfi geta alltaf komið upp aðstæður þar sem allt fer úrskeiðis, kennurum til lítillar ánægju. Verið búin undir þetta og hafið einhvers konar viðbragðsáætlun tiltæka. Hafið þið t.d. símanúmer hins kennararans ef erindið er afar brýnt og getið hringt í hann án þess að símreikningurinn geri út af við ykkur?
Ræðið einnig við bekkinn ykkar um hvaða væntingar nemendur hafa til samstarfsins. Búið þau undir að þverþjóðlegt samstarf sem þetta geti reynst snúið, alveg sama hversu vel undirbúinn maður er, og að það sé alveg eðlilegt. Með þeim hætti sýna nemendur því vonandi frekar skilning ef einhverjar tafir verða eða tæknin stríðir þátttakendum, og allt gengur betur fyrir sig.
4. Veljið hentugan og góðan samskiptavettvang
Fjarlægðin milli kennara hverju sinni veldur því að erfiðara er fyrir þá að skipuleggja allt í þaula, t.d. það sem leysa mætti með léttu spjalli við kaffivélina. Hér skiptir því máli að kennarar komi sér saman um samskiptavettvang fyrir samstarf bekkja þeirra.
Veltið því fyrir ykkur hvernig þið viljað eiga í samskiptum:
- síma, Facetime, Skype, tölvupósti...?
Athugið hvar þið getið/viljið skiptast á gögnum viðkomandi samstarfinu:
- Google Docs, í sameiginlegri Dropbox-möppu, í Facebook-hópi, spjaldtölvu, töluvpósti eða eitthvað af þessu saman?
5. Veltið fyrir ykkur hópaniðurröðun
Í vinabekkjasamstarfi er upplagt að láta nemendur vinna saman í minni hópum. Niðurröðun hópa þvert á bekki getur riðlast, þar sem oft þarf að breyta hópunum á síðustu stundu (tveir nemendur eru veikir, annar þarf til tannlæknis o.s.frv.).
Veltið eftirfarandi atriðum fyrir ykkur:
- Hvernig breyta má hópum á síðustu stundu
- Hvernig hægt er að koma breytingunum til skila milli kennara og bekkja
- Hvernig hinn aðilinn staðfestir að hann viti af breytingunni
Athugið einnig með hvaða hætti er best að breyta niðurröðun hópa, t.d. með stuttum fyrirvara. Er þægilegast að nota sameiginlegt Google Docs-skjal, fésbókarhóp eða spjaldtölvu – að viðbættu lifandi myndbandssamtali úr tölvu kennarans svo skólastofurnar tveir og bekkirnir geti verið samtengdir?
6. Auðveldið ykkur vinnuna með góðu yfirliti
Þegar nemendur vinna saman þvert á landamæri í stafrænni kennslustofu er þeim mun brýnna að að hafa hreinu hvenær og hvernig á að vinna ákveðna þætti – og hvert maður stefnir. Með öðrum orðum er brýnt að skilja hvar maður er í ferlinu og hvers vegna.
Skýrt og sameiginlegt yfirlit yfir viðfangsefnin sem eru á dagskrá – þ.e. það sem Gilly Salmon hefur kallað e-tivities – auðveldar ykkur þetta. Yfirlitið á að vera aðgengilegt nemendum í gegnum allt ferlið – annað hvort á stafrænu formi eða útprentað. Þar á að koma fram hvað, hvers vegna, hvernig og með hverjum á að vinna viðkomandi verkefni.
Vel undirbúin og leiðbeinandi dagskrá auðveldar ykkur halda vinnunni í réttum skorðum svo að þið sem kennarar getið varið tíma ykkar önnur aðkallandi verkefni.
7. Hafið þetta einfalt
Þverþjóðlegt samvinnuverkefni með þátttakendum, sem maður þekkir ekki og hafa annað móðurmál og er þar að auki á netinu er nógu mikil áskorun út af fyrir sig. Þess vegna getur verið þjóðráð þegar hafist er handa við undirbúninginn að færast ekki of mikið í fang:
- Gerið ekki ráð fyrir of mörgum dagskrárliðum (og jafnframt að allt muni taka lengri tíma en þið haldið)
- Dagskráin verður að vera einföld í sniðum og líkleg til að glæða áhuga nemenda
- Veljið frekar styttri texta/myndir
- Forðist að blanda gerólíkum vinnuaðferðum saman, t.d. myndbandsgerð, ritun og hljóðvarpsvinnslu
8. Lofið nemendum að kynnast hver öðrum
Að vinna með nemendum í öðru landi er ávísun á glaða nemendur í ykkar bekk. Börn og unglingar eru yfirleitt mjög áhugasöm og spennt fyrir vinabekkjasamstarfinu.
Reynið að haga dagskránni þannig að nemendur fái tækifæri til að kynnast hver öðrum áður en verkefnin taka við. Það er nemendunum í hag. Gefið þeim tækifæri til að myndbandsspjalla hver við annan. Þeir stökkva á tækifærið og fela sig sjaldan á bakvið einfalt textaspjall. Oftar en ekki spyrja þeir óðar hvort þeir geti ekki heimsótt hver annan.
Afrakstur þverþjóðlegrar samvinnu helst í hendur við áhuga nemenda. Stefnumót við „hina“ veitir manni nýja sýn á eigin starfshætti og nemendur ykkar munu t.a.m. fara að velta fyrir sér hvernig þeirra eigið móðurmál er uppbyggt þegar þeir bera það saman við hitt tungumálið (sbr. námsmarkmið um málvitund).
9. Fléttið námsmarkmið inn í samvinnuna
Vinabekkjasamvinna í þverþjóðlegri kennslustofu þarf ekki endilega að fela í sér meiri kennslu eða vinnu. Fléttið viðeigandi markmið úr námsáætluninni inn í samvinnuna. Þannig getið þið reynt hvernig kynnin af öðru máli, annarri menningu og öðru hugmyndum o.s.frv. geta verið eins og stór spegilll sem þið haldið fyrir framan ykkur og sjáið þannig ykkur sjálf, ykkar eigið mál, ykkar eigin venjur o.s.frv. á glænýjan hátt.
10. Kennaratengslin geta verið dýrmæt til lengri tíma litið
Vel heppnað vinabekkjasamstarf getur verið upphafið að mörgum góðum stundum í kennslustofunni. Lítið á kollega ykkar erlendis sem langtímafjárfestingu og ræktið tengslin. Þróið og bætið samvinnu ykkar og lærið smátt og smátt hver af öðrum. Kæmi kannski til greina að flétta fleiri fög inn í samvinnuna, t.d. að útbúa þverfagleg verkefni sem aðrir kennarar kæmu einnig að?