Norðurlandaráð er hluti af hinu opinbera norræna samstarfi sem er eitt elsta samstarf í heimi.
Aðildarlönd samstarfsins eru Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Danmörk, Ísland, Noregur og Svíþjóð urðu aðilar að Norðurlandaráði þegar Norðurlandaráð var stofnað árið 1952. Finnland gerðist aðili árið 1955, Færeyjar og Álandseyjar árið 1970 og Grænland árið 1984.
Norrænt samstarf á rætur í stjórnmálum, efnahagsmálum og menningu. Norrænu samstarfi á að beina að verksviðum þar sem samnorrænar aðgerðir mynda virðisauka fyrir löndin og íbúa þeirra. Norræna samstarfið miðar að því að því að Norðurlöndin séu öflug á alþjóðavettvangi og að þau gegni mikilvægu hlutverki í alþjóðlegu og evrópsku samstarfi. Sameiginleg gildi landanna styrkja stöðu Norðurlanda sem eitt þeirra svæða heims þar sem nýsköpun og samkeppnishæfni er mest.
Eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk beitti stjórnmálafólk þeirra tíma sér fyrir öflugra alþjóðasamstarfi. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar, einnig Evrópuráðið og fyrstu skrefin voru tekin að því sem síðar varð Evrópusambandið. Á sama tíma var mikið rætt um að auka Norðurlandasamstarf. Afrakstur þeirrar umræðu er Norðurlandaráð en það var stofnað 1952.
Opinbert norrænt samstarf fer fram á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, sem er vettvangur ríkisstjórnanna, og Norðurlandaráðs, en það er samstarfsvettvangur þjóðþinganna. Samstarfsráðherrarnir eru í forystu fyrir Norrænu ráðherranefndinni og í samræmi við samninginn um norrænt samstarf, Helsingforssamninginn, aðstoða þeir forsætisráðherrana við samhæfingu norrænna málefna. Síðan 1952 hefur Norðurlandaráð staðið að verkefnum og sinnt ráðgjafar- og eftirlitshlutverki í málum sem varða hið opinbera norræna samstarf.
Þau sem eiga sæti í Norðurlandaráði kallast fulltrúar. Þeir eru þingmenn í norrænu löndunum og eru valdir til þátttöku í Norðurlandaráði í samræmi við tillögur mismunandi flokkahópa. Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð eiga 20 fulltrúa hvert land. Tveir af fulltrúum Danmerkur eru frá Færeyjum og tveir frá Grænlandi, en tveir af fulltrúum Finnlands eru frá Álandseyjum. Ísland á sjö fulltrúa. Ekki eru haldnar beinar kosningar til Norðurlandaráðs. Í ráðinu sitja 87 fulltrúar. Norðurlandaráði er stjórnað af forsætisnefnd sem samanstendur af þingmönnum frá öllum Norðurlöndunum.
Fulltrúar Norðurlandaráðs ræða málefni og þróun norræns samstarfs við forsætisráðherrana einu sinni á ári á leiðtogafundi í tengslum við Norðurlandaráðsþing. Til viðbótar við reglulega þingið og þemaþing heldur Norðurlandaráð reglulega fundi í nefndunum, vinnuhópum og forsætisnefndinni. Á þingunum tveimur taka fulltrúar Norðurlandaráðs ákvarðanir um málefni sem Norðurlandaráð vill að ríkisstjórnir Norðurlandanna finni lausnir á. Stjórnmálastarf Norðurlandaráðs fer fram í nefndum og flokkahópum.
Á reglulega þinginu er einnig kosinn forseti, varaforseti og fulltrúar í forsætisnefnd fyrir komandi ár. Löndin skiptast árlega á að gegna formennsku. Hefðbundið þing er haldið í því landi sem fer með formennsku í Norðurlandaráði. Þemaþingið, sem haldið er á hverju vori, er haldið í því landi sem fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Landið sem fer með formennskuna skrifar formennskuáætlun sem markar stefnuna í starfi Norðurlandaráðs.
Auk forsætisnefndar samanstendur Norðurlandaráð af fagnefndum, vinnuhópum svo sem stjórnsýsluhindranahópnum og fjárhagsáætlunarhópi ásamt eftirlitsnefndinni og kjörnefndinni. Norðurlandaráð fær þjónustu frá skrifstofu sem er hýst á sama stað og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn. Norðurlandaráð fær þar að auki þjónustu frá fagráði skrifstofunnar. Fagráð skrifstofunnar samanstendur af skrifstofum norrænu landsdeildanna hvers lands, skrifstofum flokkahópanna og Norðurlandaráði æskunnar.
Stefnumarkandi skjöl um starf Norðurlandaráðs:
Helsingforssamningurinn frá 1962, grundvöllurinn að hinu opinbera norræna samstarfi.
Norðurlandaráð beitir sér einnig fyrir Norðurlöndunum á alþjóðavettvangi:
Um er að ræða samstarf fyrir utan Norðurlöndin. Nánasta alþjóðasamstarfið er við nágrannalönd Norðurlandanna, t.d. Eystrasaltsríkjaráðið, Vestnorræna ráðið, fastanefnd þingmanna norðurskautssvæðisins og Evrópuþingið.
Hvað gerir Norðurlandaráð?
Forsætisnefndin
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvaldið milli hinna árlegu funda, þinganna og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd ráðsins. Forsætisnefndin stýrir og samræmir starf allra nefnda og ráða ráðsins, ber ábyrgð á umfangsmiklum pólitískum og stjórnsýslulegum málum, gerir skipulagsáætlanir og fjárhagsáætlanir og fer með heildarábyrgð á málefnum sem snerta utanríkis- og varnarmál. Forsætisnefnd er skipuð 15 fulltrúum ásamt forseta og varaforseta.
Fagnefnd Norðurlandaráðs
Stjórnmálastarf Norðurlandaráðs fer fram í fagnefndum og flokkahópum. Öll pólitísk málefni, fyrir utan utanríkis- og varnarmál, sem forsætisnefndin ber ábyrgð á eru afgreidd í einhverri af fagnefndum ráðsins. Í nefndum Norðurlandaráðs eru allt að 18 meðlimir, að formanninum og varaformanninum meðtöldum. Nefndarfundir eru ekki opnir almenningi. Ráðstefnurnar og málþingin eru þó oft opin fleirum en bara meðlimunum og sérstökum boðsgestum. Eitt af verkfærum meðlima Norðurlandaráðs er að leggja fram þingmannatillögu. Forsætisnefndin og nefndirnar (ein eða fleiri saman) geta einnig lagt fram tillögur. Slíkar tillögur kallast forsætisnefndar- eða nefndartillögur. Ef eftirlitsnefndin leggur fram tillögu kallast hún eftirlitsnefndartillaga. Ef flokkahópur leggur fram tillögu kallast hún þingmannatillaga.
- Tillaga
Ferlið hefst á tillögu sem lögð er fram af einum eða fleiri meðlimum Norðurlandaráðs eða af flokkahópum, landsdeildum, nefndum eða forsætisnefndinni. Tillögur eiga að efla norrænt samstarf og gera gagn fyrir Norðurlöndin. - Kynning á þingfundi eða í nefnd
Tillögur eru fyrst kynntar annað hvort í nefnd, forsætisnefnd eða fyrir allt Norðurlandaráð á þingfundi. - Málið tekið fyrir í nefnd
Eftir fyrstu kynningu og umræður um tillöguna er hún tekin fyrir í nefnd sem skrifar svo nefndarálit um hana. Sumar tillögur eru teknar fyrir oft í nefndinni. - Ákvörðun tekin á Norðurlandaráðsþingi
Að lokum fara umræður um nefndarálitið fram á þingfundi Norðurlandaráðs. Ákvörðun um tillöguna er tekin á þingfundi. Í sumum tilfellum er endanleg ákvörðun tekin í forsætisnefndinni. Ef nefndarálitið er samþykkt með einföldum meirihluta á þingfundi er það sent sem tilmæli til norrænu ríkisstjórnanna og/eða Norrænu ráðherranefndarinnar sem tekur svo afstöðu til tilmælanna í eigin ákvarðanatöku.
Nefndir Norðurlandaráðs, desember 2022:
Norræna þekkingar- og menningarnefndin
Þessi nefnd vinnur með málefni og mál sem snerta menningu, rannsóknir og menntun, grunn- og framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu og alþýðufræðslu — þar á meðal mál sem snerta tungumálasamstarf, nýmiðla, færniþróun og nýsköpun á sviði menntamála.
Nefndin vinnur einnig að málum sem snerta borgaralegt samfélag og afl og störf sjálfboðaliða, enda gegna þessir tveir þættir mikilvægu hlutverki í lýðræðislegu velferðarsamfélagi. Íþróttir, tungumál, kvikmyndir og fjölmiðlar, almenn og fjölbreytileg list og menning, og menning barna og ungmenna eru jafnframt á starfssviði norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar.
Norræna sjálfbærninefndin
Þessi nefnd vinnur að viðfangsefnum og málum sem snerta umhverfis- og náttúruvernd, náttúruauðlindir — þar á meðal nýtingu náttúruauðlinda í landbúnaði, sjávarútvegi og skógrækt. Loftslagsmál eru jafnframt mikilvægur hluti af starfi nefndarinnar — þar á meðal afleiðingar loftslagsbreytinga sem einkum má merkja á nyrstu svæðum Norðurlanda. Til dæmis á Grænlandi vegna bráðnunar jökulhettunnar, en einnig hafa afleiðingar á alþjóðavettvangi og geta til dæmis leitt til straums loftslagsflóttamanna. Meðal annarra viðfangsefna nefndarinnar má nefna réttindi neytenda, fiskveiðistjórnun, stefnumótun í landbúnaði, matvæli, kjarnorkuöryggi, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbærni. Lögð er áhersla á hvort tveggja norræn og alþjóðleg úrlausnarefni og lausnalíkön á áðurnefndum sviðum.
Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin
Þessi nefnd vinnur að málefnum og viðfangsefnum sem snerta vinnumarkað og vinnuumhverfi, atvinnulíf, viðskipti, iðnað, orku, baráttu gegn stjórnsýsluhindrunum, samgöngumál og öryggi í samgöngumálum. Hið norræna samstarf snýst einnig að miklu leyti um frjálsa för á vinnumarkaði. Baráttan gegn stjórnsýsluhindrunum gerir almenningi auðveldara fyrir að stunda nám og starfa þvert á landamæri. Nefndin fjallar einnig um mál sem tengjast fjármála- og efnahagsstefnu — þar á meðal rammaskilyrði rannsókna, framleiðslu og viðskipta, og í framhaldi á því frjálsa för á mörkuðum og vinnumörkuðum á Norðurlöndum. Byggða- og uppbyggingarstefna, fjarskipti og upplýsingatækni eru einnig á starfssviði norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar.
Norræna velferðarnefndin
Þessi nefnd leggur áherslu á norræna velferðarlíkanið. Nefndin leitast við að finna góðar efnahagslegar lausnir sem jafnframt eru sjálfbærar. Nefndin fæst meðal annars við mál sem snerta umönnun barna, ungmenna og aldraðra, fötlun, áfengi, fíkniefni og misnotkun. Einnig er unnið með viðfangsefni sem tengjast jafnrétti, borgaralegum réttindum, lýðræði, mannréttindum og baráttu gegn afbrotum. Samþætting innflytjenda, fólksflutningar og flóttamenn heyra jafnframt undir nefndina og sama er að segja um húsnæðismál og málefna frumbyggja Norðurlanda.
Kynning á flokkahópunum í Norðurlandaráði:
Flokkahópur jafnaðarmanna
Flokkahópur jafnaðarmanna er einn af stærstu flokkahópum Norðurlandaráðs og í honum eru fulltrúar jafnaðarmanna frá öllum norrænu löndunum og frá Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum.
Flokkahópur miðjumanna
Í flokkahópi miðjumanna eru aðal- og varamenn í Norðurlandaráði frá norrænu löndunum, Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum sem tilheyra frjálslyndum miðjuflokkum, grænum flokkum og kristilegum demókrötum.
Flokkahópur hægrimanna
Í flokkahópi hægrimanna eru fulltrúar frá sjö stjórnmálaflokkum á Norðurlöndum fimm auk Færeyja, Grænlands og Álandseyja.
Norrænt frelsi
Flokkahópinn Norrænt frelsi í Norðurlandaráði skipa þingmenn og varamenn þeirra frá Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð. Hópurinn styður frelsi, lýðræði og hugmyndina um sjálfstæð þjóðríki.
Norræn vinstri græn
Flokkahópurinn Norræn vinstri græn í Norðurlandaráði samanstendur af fulltrúum og varafulltrúum vinstri flokka á Norðurlöndum, einnig Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Í hópnum eru fulltrúar átta flokka á Norðurlöndum.
Utan flokkahópa
Auk hinna fjögurra flokkahópa eru fulltrúar sem standa utan flokkahópa.