Norræna skólaspjallið er nýstárleg og skemmtileg leið fyrir nemendur á Norðurlöndum til að kynnast hver öðrum. Spjallið gefur þeim einstakt tækifæri til að æfa sig í að skilja mun og líkindi milli nágrannamálanna dönsku, norsku og sænsku.
Skólaspjallið er rúllandi spjall, sem gefur nemendum tækifæri til að ræða við jafnaldra sína á Norðurlöndum í handahófskenndri röð. Á skjánum birtast tveir spjallgluggar – sér maður sjálfan sig í öðrum og norrænan nemanda, valinn af handahófi, í hinum. Allir nemendur á Norðurlöndum geta tekið þátt – frítt!
Hvernig getur bekkurinn minn tekið þátt í norræna skólaspjallinu?
Til að taka þátt í norræna skólaspjallinu verður þú fyrst að stofna notanda á Norden i Skolen (það kostar ekki krónu!). Því næst getur þú skráð bekkinn þinn til leiks þann dag sem þið hyggist taka þátt með því að velja skráningarhnappinn við viðburðinn. Yfirlit yfir viðburðina má nálgast á síðu norræna skólaspjallsins. Þegar stóra stundin rennur upp getur þú skráð þig inn á skólaspjallið. Gakktu úr skugga um að allur tæknibúnaður, net og annað, sé í lagi og að vírusvarnir/eldveggir verði ekki til vandræða áður en hafist er handa.
Hvernig skrá nemendur sig inn á norræna skólaspjallið?
Þeir skrá sig inn með sérstöku notendanafni fyrir nemendur sem er sent út þegar bekkurinn er skráður til leiks. Allir nemendur í bekknum geta notað sömu notendaupplýsingar.
Hvernig skráir maður sig úr skólaspjallinu?
Viljir þú skrá bekk þinn úr tilteknum spjallviðburði getur þú gert það með því að smella á hlekkinn í staðfestingarpóstinum sem sendur var þegar bekkurinn var skráður til leiks. Gakktu að því loknu úr skugga um að bekkurinn sé örugglega ekki lengur skráður.
GÓÐ HEGÐUN – GÓÐAR STUNDIR
Norræna skólaspjallið á að vera bæði notalegur og skemmtilegur vettvangur fyrir nemendur til að kynnast jafnöldrum sínum á Norðurlöndum. Norden i Skolen fer þar af leiðandi fram á að þátttakendur komi almennilega fram hver við annan og sýni viðmælendum sínum virðingu. Mælst er til að bekkurinn ræði ítarlega saman um góða hegðun á netinu (netsiðferði), áður en hafist er handa. Ræðið til að mynda við nemendur ykkar um að þeir séu ekki einungis fulltrúar síns sjálfs í samskiptum við nemendur frá hinum Norðurlöndunum, heldur einnig sendiherrar skóla síns, borgar og lands.
Spjallið er ekki opið öllum stundum, heldur eingöngu á fyrirfram ákveðnum tímasetningum, þar sem fylgst er með því sem fram fer. Lagt er upp með að engin ritskoðun eigi sér stað, en ef Norden i Skolen tekur eftir óviðeigandi hegðun er hægt að bregðast skjótt við og loka á aðgang viðkomandi. Þá er auk þess tikynningarhnappur í spjallglugganum, sem nemendur geta ýtt á ef þeir verða vitni að óviðeigandi hegðun eða framkomu.
Tæknikröfur
- Nota þarf vafrana Firefox eða Google Chrome (Safari-iPad)
- Tölvurnar og tablets (iOS 11 eða nýrri uppfærslu) þurfa að vera útbúnar vefmyndavélum og hljóðnemum
- Mælt er með að nemendur noti heyrnartól
- Því miður er hvorki hægt að nota snjallsíma
Skólaspjallið er haldið á fyrirfram ákveðnum dagsetningum, svo það er um að gera að fylgjast með á heimasíðu Norden i Skolen og á Facebook til að komast að því hvenær næsta spjall er á dagskrá!