Norden i Skolen er rekið af Norrænu félögunum, lýðræðislegum félagasamtökum sem starfa óháð stjórnmálaflokkum og trúarbrögðum. Norrænu félögin eru staðsett í norrænu löndunum fimm, þ.e. Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð og sjálfstjórnarsvæðunum þremur, þ.e. Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum. Tilgangur félaganna er að efla og þróa norrænt samstarf með því að leggja áherslu á m.a. skólamál og menntun, upplýsingagjöf, ungmennaskipti, vinabæjarstarfsemi og menningu. Norrænu félögin hafa frá upphafi eflt samstarf og samhug á Norðurlöndunum gegnum tengsl og samtöl milli íbúa þvert á landamæri.
„Þekking, vinátta og samvinna gera Norðurlöndin að svæði möguleikanna.“
Sýn Sambands Norrænu félaganna.
Starfsemi félaganna fer fram í svæðisbundnum félagsdeildum, á skrifstofum félaganna og milli Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna. Starfsemin skapar tækifæri til að kynnast og skiptast á reynslu og þekkingu og aukir þannig skilning á menningartengslum okkar á Norðurlöndunum.
Skrifstofa Norden i Skolen er staðsett hjá regnhlífarsamtökunum Sambandi Norrænu félaganna sem samhæfir samstarfið milli Norrænu félaganna. Helsta hlutverk Sambands Norrænu félaganna er að samhæfa og styðja við starfsemi Norrænu félaganna í því skyni að efla norrænt samstarf á öllum stigum.
Saga
Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar, sem hafði í för með sér aukið norrænt samstarf, var Norræna félagið stofnað í Danmörku, Noregi og Svíþjóð árið 1919 og nokkrum árum seinna í Finnlandi, Íslandi og sjálfstjórnarsvæðunum Færeyjum, Álandseyjum og Grænlandi. 1965 voru stofnuð norræn regnhlífarsamtök, Samband Norrænu félaganna, þar sem formenn Norrænu félaganna tóku sæti í stjórn. Samband ungmennadeilda Norrænu félaganna er sjálfstæð ungmennasamtök sem samanstendur af ungmennadeildum Norrænu félaganna.
Norrænu félögin hafa í tvígang verið tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels og gegndu pólitísku hlutverki þegar norrænu stofnanirnar Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin voru stofnaðar. Norrænu félögin voru einnig drifkraftur í starfinu sem leiddi til norræns samstarfs um vegabréfafrelsi, samnorræns vinnumarkaðar, félagsmálasáttmálans, tungumálasáttmálans og hugmynda um sameiginlegan norrænan markað.
Ganga í félagið
Með því að ganga í Norræna félagið sýnir þú fram á mikilvægi þess að virða og efla öll þau samskipti og sambönd sem til eru á milli íbúa á Norðurlöndunum. Hægt er að ganga í félagið sem einstaklingur en í sumum löndum geta skólar einnig fengið félagsaðild. Norrænu félögin mynda tengsl og upplifanir á milli íbúa Norðurlandanna undir kjörorðinu „þekking leiðir til vináttu“. Félagsmenn geta t.d. tekið þátt í norrænum viðburðum, námskeiðum, ferðum og ráðstefnum og fá þannig tækifæri til að kynnast nýju fólki. Íslendingar undir 30 ára geta gengið í Ung norræn, ungmennadeild Norræna félagsins, án endurgjalds.
Skoðaðu heimasíðu Norræna félagsins og ungmennadeildarinnar í þínu landi til að fá nánari upplýsingar um aðild.