Norðurlöndin kalla!
Norðurlöndin kalla!
Á Norðurlöndunum eigum við margt sameiginlegt, meðal annars vegna langrar sameiginlegrar sögu. Fjölbreytileiki og jafnvel fordómar eru þó enn til staðar, bæði milli landanna og innan hvers lands. Ef við á Norðurlöndunum ætlum að kynnast hvert öðru betur þurfum við fyrst að vita meira um hvert annað. Við þurfum bæði að upplifa tungumál hvert annars og öðlast heiðarlegan og fordómalausan skilning á lifnaðarháttum annars fólks á Norðurlöndunum.
Til eru margar sögur og skoðanir um Norðurlöndin en nú viljum við heyra ykkar persónulegu frásagnir. Í þessu verkefni eigið þið að búa til kvikmyndir um norræna staði: Hvernig lítur ykkar staður út í augum fólks sem er að sjá hann frá alveg nýju sjónarhorni? Hvað þýðir það yfirhöfuð að vera hluti af Norðurlöndunum – ef þið ættuð að segja það stuttlega í kvikmynd?
Búið til myndir, deilið þeim með öðru ungu fólki á Norðurlöndum og ræðið ólíkar hliðar á lífi ungs fólks á svæðinu.
Sendið inn ykkar framlag fyrir 1. nóvember 2026.
Ein leið til að tjá sig – og kynna sig á Norðurlöndunum – er að búa til kvikmyndir og deila þeim. Norðurlöndin kalla eftir kvikmyndum frá öllum hornum norræns samfélags! Kvikmyndir geta opnað dyr og vakið áhuga þvert á landamæri. Kannski geta þær líka fært landamærin aðeins til?
Ímyndið ykkur að þið eigið að kynna hver þið eruð og hvaðan þið komið fyrir öðrum norrænum ungmennum. Hvernig lítur ykkar staður út og hvernig eru aðrir staðir? Hvernig er að vera ungur á Norðurlöndunum og hvað er það sem sameinar okkur – eða aðgreinir okkur – sem Norðurlandabúa? Það er kominn tími á nýjar, blæbrigðaríkar myndir sem sýna norræna menningu og norrænt landslag, teknar upp af ykkur sem þekkið Norðurlöndin vel.
Fylgið skrefunum hér að neðan og sækið vinnublöðin, þar sem þið finnið ítarlegar lýsingar á hverju skrefi. Kennarar geta nálgast frekari upplýsingar í kennsluleiðbeiningunum.
Þið skuluð byrja á því að kíkja nánar á verkefnið og Norðurlöndin í kvikmyndum. Horfið á nokkur brot úr faglegum heimildarmyndum frá og um Norðurlöndin. Ræðið svo spurningarnar á vinnublaðinu:
Finnið viðeigandi vinkil á myndina ykkar og ræðið hvað það er sem einkennir ykkar stað á Norðurlöndunum, samkvæmt ykkar upplifun. Hvernig er að vera ungur einmitt á staðnum þar sem þið búið? Íhugið hvernig þið getið notað kvikmyndafræðilegar aðferðir til að sýna fram á tengsl ykkar við staðinn. Sem aukaverkefni getið þið reynt að leggja áherslu á ágreiningsmál um norræna samstöðu... Eru til slík mál?

Horfið á dæmi um nemendamynd og fáið innblástur fyrir myndina sem þið ætlið sjálf að búa til. Veljið góðan tökustað í nágrenninu og ákveðið boðskap myndarinnar, atriðin sem þið ætlið að taka upp og heimildir sem þið getið vísað í. Þið vinnið í hópum að því að þróa hugmyndir og gera söguborð fyrir tökurnar. Hvernig miðlar maður lífi sínu í mynd til allra Norðurlandaþjóðanna?
Takið myndina upp á völdum tökustað út frá söguborðinu. Segið skýra sögu um ykkar stað og beitið kvikmyndafræðilegum aðferðum sem þið hafið tök á. Sendið boðskap! Klippið myndina í forriti sem þið kunnið á. Að lokum hlaðið þið myndinni upp og deilið henni með öllum Norðurlöndum.